Vægi Vestfjarða minnkað mikið

Hlutfall Vestfjarða af íbúafjölda landsins hefur lækkað úr 7,8% árið 1950 í 2% á þessu ári. Að sama skapi hefur hlutfall Norðurlands vestra af íbúafjöldanum lækkað úr 7,2% 1950 í 2,1% árið 2017. Með sama áframhaldi verður hlutdeild beggja landshluta komin undir 2% á næstu árum. Þetta má lesa úr tölum Hagstofunnar, sem teknar voru saman að beiðni Morgunblaðsins og eru birtar í blaðinu í dag. Þær sýna íbúafjölda eftir landshlutum árin 1950, 1960, 1990, 2000, 2010 og 2017. Aðgengi að gögnum á þátt í að þessi ár voru valin. Miðað við íbúaþróun í ár er hlutfall Vestfjarða nú líklega undir 2%.

Vægi höfuðborgarsvæðisins af íbúafjöldanum hefur aukist á tímabilinu. Hlutfall svæðisins af íbúafjöldanum var 45,4% árið 1950 en 64,1% árið 2017. Á sama tímabili jókst hlutfall Suðurnesja úr 3,2% í 7,1%. Rúmlega 71% íbúa landsins býr því nú á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Sé Akranes talið með og Selfoss og Hveragerði – íbúafjöldi í þessum bæjum var alls 16.800 um áramótin – hækkar hlutfall stór-höfuðborgarsvæðisins í rúm 76%.

DEILA