Tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma á vegum ríkisins og BSRB

Lögreglan á Vestfjörðum er ein fjögurra stofnana sem taka þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma sem hleypt var af stokkunum í maí. Það eru fjórar stofnanir sem taka þátt og fyrir utan hinn vestfirska vörð laganna er það Útlendingastofnun, Þjóðskrá og Ríkisskattstjóri sem freista þess að ná sama árangri í afköstum en með styttri viðveru starfsmanna. Lögreglan á Vestfjörðum er eina stofnunin utan höfuðborgarsvæðisins og eina stofnunin í vaktavinnu.

Fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra undirrituðu yfirlýsingu í október 2015 um vilja stjórnvalda til að stytta vinnutíma án launaskerðingar og ná fram gagnkvæmum ávinningi starfsfólks og stofnana. Markmið var að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 vinnustundum niður í 36 stundir leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi stofnana. Sérstaklega skyldi skoða hvernig útfæra megi styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal á stofnunum þar sem unnin er vaktavinna.

Skipaður var starfshópur um verkefnið þar sem þátttakendur koma frá velferðarráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og BSRB, starfsmaður verkefnisins er Ása Guðbjörg Ásgeirsdóttir.

Í nóvember var svo auglýst eftir þátttakendum og formlega hófst verkefnið þann 1. maí 2017 og stendur yfir í eitt ár. Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri segir að verkefnið fari vel af stað en það muni koma betur í ljós þegar líða tekur á hvort verkefnið gangi upp og verði til bóta.

bryndis@bb.is

DEILA