Skipstjórinn ákærður

Hvestudalur við Arnarfjörð. Mynd: Mats Wibe Lund.

Á ruv.is kemur fram að héraðssaksóknari hafi ákært skipstjóra dragnótabáts fyrir að valda almannahættu og stórfelldum eignaspjöllum. Forsaga málsins er sú að dragnótabáturinn togaði rækjutroll þvert yfir rafstreng sem lá neðansjávar yfir fjörðinn. Strengurinn slitnaði og við það fór rafmagnið af fjarskiptamastri á Laugabólsfjalli.

Öll eftirlitskerfi með skipaferðum duttu út í meira enn sólarhring og segir í ákæru að skipstjórinn hafi með þessu raskað öryggi skipa á svæðinu.

Neyðarlínan og Orkubú Vestfjarða kærðu í byrjun árs 2015 þrjá rækjuskipstjóra til lögreglu fyrir að vinna skemmdarverk á sæstrengnum, þetta kemur fram á Vísi.

Rækjusjómenn voru mjög ósáttir við sæstrenginn og sögðu hann lagðan yfir gjöful rækjumið, eins voru áhöld um hvort leyfi hefði verið gefið fyrir lagningu hans. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir þáverandi skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar segir í umsögn sinni um málið að ekkert formlegt leyfi hafi verið gefið út og undir það tekur Daníel Jakobsson fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, núverandi bæjarfulltrúi.

Haft er eftir Þórhalli Ólafssyni framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar og Kristjáni Haraldssyni þáverandi orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða að þeir telji öll tilskilin leyfi hafi legið fyrir og að skipstjórarnir þrír hafi tekið lögin í sínar hendur og siglt vísvitandi á bátum sínum yfir strenginn og togað hann í sundur.

bryndis@bb.is

DEILA