Sektir fyrir umferðarlagabrot verða hækkaðar

Að tala í farsíma undir stýri verður dýrt spaug.

Að beiðni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hefur ríkissaksóknari gert tillögu að breyttri reglugerð um sektir við umferðarlagabrotum. Lagt er til að fjárhæðir sekta verði uppfærðar með hliðsjón af þróun verðlags en núgildandi reglugerð var sett árið 2006. Í tillögu ríkissaksóknara að breyttri reglugerð segir að almennt geri hann tillögu um að fjárhæðir sekta verði uppfærðar með hliðsjón af þróun verðlags frá því 2006. Þó leggur ríkissaksóknari til að lægstu sektir verði 20.000 kr. að undanskildum viðurlögum við að hafa ekki ökuskírteini meðferðis en sekt vegna þess verði 10.000 kr.  Loks gerir hann tillögu um að sektir fyrir notkun farsíma verði hækkaðar úr 5.000 kr. í 40.000 kr.  Að mati ráðuneytisins hefur notkun farsíma við akstur aukist til muna sem dregur úr umferðaröryggi, og þar af leiðandi nauðsynlegt að bregðast við þeirri þróun með hækkun sekta við brotum af því tagi.

Í tillögu ríkissaksóknara að samanlagðar sektir fyrir mörg brot verði hæst 500.000 kr. Slíkt kallar á breytingar á umferðarlögum en ákvæði þeirra miðar hámarkið við 300.000 kr.

DEILA