Raforkunotkun eykst um 100 MW á áratug

Raforkuspá Orkustofnunar gerir ráð fyrir því að raforkuþörf almennings á Íslandi aukist um 100 megavött á áratug til ársins 2050. Til að mæta aukinni þörf sé annað hvort nauðsynlegt að fjölga virkjunum á Íslandi eða taka orku frá stórnotendum og ráðstafa til almennings.

Orkustofnun gefur út nýja raforkuspá fyrir Ísland á hverju ári. Spáin tekur aðeins til þarfar almennra notenda eins og heimila og þjónustufyrirtækja, en ekki stórnotenda á borð við álver eða stórar verksmiðjur.

„Bara það sem þarf fyrir þessa almennu notkun, þá verðum við kannski komin upp í 715 MW, förum úr um 600 MW upp í 715 á tæpum tíu árum. Ef við horfum til 2030 þá erum við komin í um það bil 800. Þegar við horfum til 2050 þá eru þetta orðin tæp ellefu hundruð MW,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð,  formaður raforkuspárhóps Orkustofnunar, í samtali við fréttastofu RÚV.

DEILA