Ögurballið á helginni

Hið árlega og landsfræga Ögurball fer fram næstkomandi laugardag og að sögn þeirra Ögursystkina gengur undirbúningur vel og vonast er eftir góðri mætingu. Rabarbarinn í grautinn verður skorinn næstu daga og nóg verður til fyrir alla en hefð er fyrir því að bjóða rabarbaragraut með rjóma áður en fólk fer til síns heima eftir dansleik.

Mikil hefð var fyrir þessu fornfræga balli í fyrri tíð en þá gerðu nærsveitungar sér ferð í Ögur, oftast á hestbaki eða fóru sjóleiðina og dönsuðu fram á rauða nótt í samkomuhúsinu en ,,dansiballamenningin“ er í það minnsta jafn gömul húsinu sem byggt var árið 1926. Dansleikir lágu niðri niðrum um árabil en mörgum til mikillar gleði var hefðin endurvakin og fyrir vikið er Ögurballið einn vinsælasti viðburður sumarsins.

Öll vinna við undirbúning er unnin í sjálfboðavinnu og ágóðinn rennur til viðhalds, reksturs og uppbyggingar samkomuhússins í Ögri sem er gamalt ungmannafélagshús, byggt 1926.

María Rut Kristinsdóttir

Andlit Ögurballsins þetta árið er vestfirðingurinn María Rut Kristinsdóttir enda er rabarbaragrautur hennar uppáhald og það eru Þórunn og Halli sem ætla að halda uppi fjörinu.

bryndis@bb.is

DEILA