Nýkrýndir Norðurlandameistarar á Skákhátíð í Árneshreppi

Jóhann Hjartarson.

Stór­meist­ar­arn­ir Jó­hann Hjart­ar­son og Lenka Ptacni­kova urðu í gær Norður­landa­meist­ar­ar í skák. Þau verða bæði á Skákhátíð Hróksins í Árneshreppi sem verður um næstu helgi. Þetta er í annað sinn sem Jó­hann vinn­ur Norður­landa­meist­ara­mótið en ólíkt flest­um keppi­naut­um sín­um er hann ekki at­vinnumaður í skák. Lenka Ptácní­ková hef­ur átt góðu gengi að fagna en í fyrra varð hún Íslands­meist­ari kvenna í átt­unda skipti og í fimmta skipti í röð.  Hún vann titil­inn Norður­landa­meist­ari kvenna í skák 2005 og 2007.

Lenka Ptacni­kova.

Skákhátíð Hróksins hefst með tvískákarmóti og brennu í Trékyllisvík föstudagskvöldið 7. júlí kl. 20. Í tvískák eru tveir saman í liði, og iðulega afar heitt í kolunum.

Hápunktur hátíðarinnar verður laugardaginn 8. júlí í félagsheimilinu, minninningarmót Jóhönnu Kristjónsdóttur 2017. Jóhanna, sem lést 11. maí síðastliðinn, var meðal ötulustu liðsmanna Hróksins og hafði jafnframt sterk tengsl við Árneshrepp. Yfirskrift hátíðarinnar er sótt í kjörorð Jóhönnu: Til lífs og til gleði.

Minningarmótið hefst klukkan 14 og verða tefldar 8 umferðir, með 10 mínútna umhugsunartíma. Verðlaun á mótinu eru í senn vegleg og óvenjuleg, m.a. listaverk sem Guðjón Kristinsson frá Dröngum og Valgeir Benediktsson í Árnesi vinna sérstaklega af þessu tilefni.

Hátíðinni lýkur með hraðskákmóti í Kaffi Norðurfirði sunnudaginn 9. júlí kl. 12. Þar verða tefldar 5 mínútna skákir, 7 umferðir, og sigurvegarinn hlýtur nafnbótina Norðurfjarðarmeistarinn 2017.

DEILA