Lenging Sundabakka kostar yfir milljarð

Skemmtiferðaskipið Rotterdam á Sundabakka.

Vegagerðin hefur, að beiðni hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar, lagt mat á kostnað við lengingu Sundabakka á Ísafirði. Hafnarstjórn áformar að lengja viðlegukantinn um 300 metra ásamt umtalsverðri landfyllingu. Að auki á að dýpka við viðlegukantinn sem og í innsiglingarennu inn í Pollinn. Lengd og dýpi við Sundabakka uppfyllir ekki þarfir skemmtiferðaskipa þannig að þau stærstu eiga erfitt með að leggjast að. Vegagerðin áætlar að kostnaður við verkið nemi á bilinu 1100- 1200 milljónir kr. Framkvæmdin getur fallið undir nýframkvæmdir samkvæmt hafnalögum og geta þær verið styrktar allt að 60% úr ríkissjóð.

Umsvif Ísafjarðarhafnar eru mikil varðandi móttöku skemmtiferðaskipa og árið 2017 er áætlað að MSC Preziosa leggist að höfn þrisvar sinnum. Þetta er stærsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Ísafjarðar 2017 og tekur 4.363 farþega. Stærð þess er 333 m á lengd og ristir um 8,3 m. Til að leggjast að bryggju þarf bryggjukant sem er yfir 250 m að lengd og með dýpi um 9 m á stórstraumsfjöru.

Núverandi Sundabakki er stálþilsbryggja sem var rekin niður í tveimur áföngum á árunum 1987 og 1999. Dýpi við bryggju er 7‐8 m og lengd viðlegukants er um 190 m.

DEILA