Kalla eftir tillögum almennings

Vinna stjórnvalda við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er hafin og hefur verið opnað sérstakt vefsvæði tileinkað vinnunni á slóðinni www.co2.is. Almenningur er hvattur til að senda hugmyndir og tillögur að aðgerðum til verkefnisstjórnar á netfangið loftslag@uar.is

Gert er ráð fyrir að aðgerðaáætlunin liggi fyrir í lok árs 2017 en með henni er stefnt að því að setja fram aðgerðir sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti.

Ætlunin er að birta jafnóðum á vefsvæðinu þær tillögur sem berast en þar er einnig að finna ýmsar upplýsingar er tengjast vinnunni við aðgerðaáætlun, s.s. um verkefnastjórn áætlunarinnar, þá sex faghópa sem vinna að tillögum er varða afmarkaða geira atvinnulífs og samfélags og sérstakan samráðsvettvang sem er ætlað að vera verkefnisstjórn og faghópum til ráðgjafar meðan á vinnunni stendur.

Sex ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skrifuðu undir viljayfirlýsingu um gerð áætlunarinnar en vinnan er leidd af forsætisráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

DEILA