Hnúðlax í íslenskum ám

Mynd af hnúðlöxum, hrygnu og hæng, málaðir eftir eintökum sem veiddust hér, sennilega báðir frá Hala í Suðursveit.

„Hefur þú heyrt af að það hafi veiðst hnúðlax = pink salmon = Oncorhynchus gorbuscha í íslenskum ám í sumar“ þannig hljóðar facebook færsla Björns Þrándar Björnssonar og í ljósi umræðna á Vestfjörðum um eldisfiska og erfðablöndun vakti færslan athygli tíðindamanns bb.is.  Björn Þrándur er þátttakandi í Evrópsku samvinnuverkefni um framandi laxfiskastofna ásamt einum fremsta sérfræðingi á svið erfðablöndunar Kjetil Hindar. Það er Kjetil sem hefur nú áhuga á að kanna útbreiðslu hnúðlax og hefur óskað eftir að veiðimenn hafi varann á og láti vita ef hann veiðist í íslenskum ám.

Senda má upplýsingar í laks@nino.no og láta fylgja með mynd, dagsetningu, veiðistað, lengd og þyngd.

Í bréfi sem Kjetil Hindar sendir samstarfsaðilum sínum kemur fram að sprenging hafi orðið í veiði á hnúðlaxi í ám í Noregi, Bretlandi og Írlandi en um 300 hnúðlaxar eru skráðir í Noregi síðustu 10 daga.

Á vísindavef Háskóla Íslands segir svo um hnúðlax:

 Hnúðlaxar (Oncorhynchus gorbuscha) hafa lengi veiðst í íslenskum ám. Þeirra varð fyrst vart í evrópskum ám upp úr miðri 20. öld. Þann 12. ágúst 1960 veiddist einn slíkur í Hítará á Mýrum og var það fyrsti hnúðlaxinn sem kom á land úr íslenskri á. Hnúðlaxana í Evrópu má rekja til tilrauna Rússa til að koma á legg hnúðlaxastofnum í rússneskum ám. Í framhaldi af því fór fljótlega að bera á hnúðlöxum í öðrum ám í Evrópu, þar á meðal í íslenskum ám.

 Hnúðlaxinn, sem einnig er nefndur bleiklax, tilheyrir ættkvísl Kyrrahafslaxa. Stofnar hnúðlaxa eru þeir stærstu af tegundum Kyrrahafslaxa. Náttúrleg heimkynni tegundarinnar eru við strendur norðanverðs Kyrrahafs og við strendur Norður-Íshafsins. Asíu-megin nær útbreiðslan frá Lenu-fljóti við strendur Síberíu og allt suður til fljóta á Kóreuskaga og til Hondo-eyju í Japan en Ameríku-megin frá Mackenzie-á í Kanada suður til Sacramento-ár í norðurhluta Kaliforníu. Fyrir utan náttúrleg heimkynni hefur hnúðlaxastofnum verið komið upp víða um heim, svo sem í vötnunum miklu á landamærum Bandaríkjanna og Kanada, í vestanverðu Rússlandi og í Íran.

Ýmsar heimildir eru til um að hnúðlax hafi veiðst hér við land, til dæmis veiddist einn í Ytri Rangá árið 2015 og má lesa nánar um það í frétt á DV.

Í september 2001 berast fréttir af hnúðlax í Húseyjarkvísl og í frétt Morgunblaðsins kemur fram að þetta sé þriðji hnúðlaxinn það sumar á Íslandi, svo vitað sé.

Hér má lesa nánar um þennan sérkennilega lax

bryndis@bb.is

DEILA