Helgina 28. – 30. júlí verður haldin Náttúrbarnahátíð á Ströndum og ef vitnað er í hátíðarhaldara þá eiga allir að vita að Strandamenn er náttúrubörn sem í gegnum ár og aldir hafa glímt við náttúruöflin og lært að lifa með þeim. Þeir heyra grasið gróa og snjóinn snjóa og vita hvað það þýðir þegar hrafninn klöktir til beggja átta á bæjarhlaðinu. Á Náttúrubarnahátíð  fá gestir á öllum aldri, bæði börn og fullorðnir, tækifæri til að finna og rækta sitt innra náttúrubarn.

Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir hátíðinni og þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk Jónsdóttir hefur starfsheitið yfirnáttúrubarn. Þessi menningarstofnun hefur verið starfrækt síðan sumarið 2015 og heldur námskeið og skemmtanir og stendur fyrir allskonar útivist. Náttúrubarnaskólinn er starfræktur innan vébanda Sauðfjárseturs á Ströndum, í félagsheimilinu Sævangi sunnan við Hólmavík, og þar verður hátíðin haldin.

Markmið hátíðarinnar eru fyrst og fremst að hafa gaman, flétta saman fróðleik og fjöri. Ætlunin er að sýna fram á hvað allir skapaðir hlutir í okkar nánasta umhverfi eru í raun og veru merkilegir. Hvernig vernda má náttúruna og sýna henni virðingu, en jafnframt nýta náttúrugæði á sjálfbæran, skapandi og skemmtilegan hátt.

Hátíðin hefst á föstudegi á gönguferð og síðan veðurgaldri við veðurupplifunarstöð sem á að tryggja gott veður alla helgina á Ströndum. Veðurgaldurinn hefur, að sögn hátíðarhaldara, margsannað ágæti sitt í Náttúrubarnaskólanum, en ef hann bregst algjörlega verður alltaf hægt að flýja inn í Sævang með flesta dagskrárliði, nema kannski með útieldun og fjallgöngur.

Eftir það mun hljómsveitin Ylja halda tónleika og svo verður vöffluhlaðborð og Náttúrubarnakviss, skemmtilegur spurningaleikur fyrir alla fjölskylduna. Um helgina verður svo m.a. hægt að taka þátt í náttúrujóga, fjallgöngu og sjósundi. Þá verða smiðjur fyrir börn um útieldun og tónlist í náttúrunni, einnig verður hægt að læra jurtalitun, að vinna úr ull og rekaviði, ásamt fróðleik um hvað við getum lagt af mörkum til að vernda náttúruna.

Svavar Knútur verður svo með tónleika á laugardeginum, myndlistarsýningin Hlýnun eftir Ynju art verður á svæðinu, Ingó Geirdal sýnir töfrabrögð, sagðar verða drauga- og tröllasögur í gömlu sagnahúsi, sirkusfólk úr Melodic Objeccts sýnir listir sínar, hægt verður að fara á hestbak, heimsækja plastdýragarð og margt fleira.

Allar nánari upplýsingar og dagskrá má nálgast á facebook.com/natturubarnaskolinn eða hjá Dagrúnu Ósk í síma 661-2213

bryndis@bb.is

DEILA