Hætt við efstu snjóflóðagrindurnar

Það er ekki fyrir lofthrædda að vinna við uppsetningu snjóflóðagrindanna.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á snjóflóðavörnum í hlíðum Kubba. Eftir vettvangsskoðun í fyrra lagði framleiðandi stálgrindanna til að setja viðbótargrindr efst á upptaksvæðinu til að auka öryggi varnanna enn frekar. Þegar framkvæmdir í fjallinu hófust fyrir alvöru í vor kom í ljós að aðstæður voru mjög erfiðar, bæði mikil grjóthrunshætta og erfiðar jarðtækniaðstæður, og því var ákveðið að hætta við efstu viðbótarlínuna og styrkja næstu línu fyrir neðan með hærri grindum.

Minnisblað Verkís um breytingar á uppsetningu stoðvirkja var lagt fram til kynningar á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á mánudag. Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, lagði fram eftirfarandi spurningar við kynningu á minnisblaði Verkís:

  • Þarf Ísafjarðarbær ekki að samþykkja breytingar á verkinu?
  • Væri ekki sjálfsagt að fá annan aðila til að yfirfara verkið í heild sinni, þar sem sá aðili sem sá um verkhönnunina virðist ekki hafa getað staðið við sína útreikninga?
  • Það hefur alltaf verið sagt að það verði enginn afsláttur gefinn varðandi varnir í Kubba, þá spyr ég: Hvernig get ég treyst því að allar þessar breytingar rýri ekki öryggið?
  • Þarf Ísafjarðarbær að borga aukalega vegna þessarra breytinga, þar sem verktaki fær t.d. að sleppa uppsetningu grinda. Það hlýtur að vera minni kostnaður í því að styrkja grindur neðar í fjallinu?
  • Ef hægt er að styrkja grindur neðar í fjallinu og sleppa grindum ofar, er þá ekki hægt að gera það víðar í fjallinu og minnka þá í leiðinni ásýnd stoðvirkjanna?
  • Hafa þessar breytingar ekkert að segja varðandi áhættumatið?
DEILA