Gistinóttum fjölgar á landsvísu – fækkar fyrir vestan

Gistinætur á hótelum í maí voru 303.000 sem er 7% aukning miðað við maí 2016. Gistinætur erlendra gesta voru 87% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 6% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 15%.

Flestar gistinætur á hótelum í maí voru á höfuðborgarsvæðinu eða 176.400 sem er 1% aukning miðað við maí 2016. Um 58% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Gistinætur á Suðurnesjum voru 20.400, sem er 65% aukning frá fyrra ári, en einnig var 26% aukning á Norðurlandi, þar sem gistinætur voru 28.800. Gistinætur á Vesturlandi og Vestfjörðum voru 15.600, sem er 1% samdráttur frá fyrra ári. Erlendir gestir með flestar gistinætur í maí voru Bandaríkjamenn með 85.300, Þjóðverjar með 34.300 gistinætur og Bretar með 28.600, en íslenskar gistinætur í maí voru 38.800.

Á tólf mánaða tímabili frá júní 2016 til maí 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 4.142.000 sem er 30% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

DEILA