Fjöruhreinsun gekk vel

Vaskur hópur sjálfboðaliða. Mynd af vef Umhverfisstofnunar

Um mánaðarmótin gekk vaskur hópur sjálfboðaliða um hinn fagra Rauðasand og er þetta þriðja sumarið sem sandurinn er genginn og hreinsaður. Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að gengnir hafi verið um 18 kílómetrar og söfnuðust 25 rúmmetrar af rusli. Metþátttaka var í sumar en 27 einstaklingar mættu til verksins. Blíðskaparveður var þennan dag sem endaði svo í selaskoðun og sjósundi.

Hreinsunin er samstarfsverkefni Vesturbyggðar, Umhverfisstofnunar og landeigenda á Rauðsandi.

Í frétt Umhverfisstofnunar kemur fram að hluti af fjöruhreinsuninni sé unnin í tengslum við OSPAR samninginn og er Rauðisandur ein þeirra fjara á Íslandi sem árlega eru vaktaðar í tengslum við hann. OSPAR hluti verkefnisins er unninn á þann hátt að afmarkaður hefur verið 100 metra kafli á ströndinni sem hreinsaður er árlega, allt rusl greint og talið og niðurstöðurnar skráðar í gagnagrunn OSPAR að því loknu. Náttúrustofa Vestfjarða sér um vettvangsvinnuna fyrir hönd Umhverfisstofnunar.

OSPAR samningurinn gengur út á verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, meðal annars með því að draga úr mengun frá landi og uppsprettum á hafi. Á hverju ári berst mikið af rusli í hafið og safnast saman á hafsbotni, úti á opnu hafi eða rekur upp í fjörur og þarf mjög víðtækt samstarf að koma til við lausn á vandamálinu, meðal annars með forvörnum.

bryndis@bb.is

DEILA