Aflheimildir verði festar við byggðalög

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Ódýrasta aðgerðin til þess að efla byggð og líf á Vestfjörðum er að festa aflaheimildir við byggðalög segir Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna. Hún var gestur Óðins Jónssonar á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Lilja Rafney segir ekki sé hægt að breyta kvótakerfinu á einu ári og því þurfi að horfa til meiri fjölbreytni í atvinnutækifærum. Þau séu vissulega til staðar en að þá þurfi innviðir að spila með og stjórnvöld og sveitarfélög að koma til.

Lilja Rafney er hlynnt áframhaldandi fiskeldi en segir að fara þurfi með gát.  Fljótlega sé von á niðurstöðum starfshóps um umgjörð fiskeldis. Fiskeldið hafi verið mikil lyftistöng á svæðinu og til dæmis sé í fyrsta sinn í langan tíma verið að byggja nýtt húsnæði á Bíldudal og Patreksfirði.  „Við þurfum að vanda okkur og fara ekki út fyrir þau svæði sem að við teljum að henti fyrir fiskeldið. En ég tel að Jökulfirðirnir og Eyjafjörður eigi ekki til dæmis að vera lagðir undir fiskeldi,“ sagði Lilja Rafney á Morgunvakt Rásar 1.

DEILA