Umhverfisstofnun hefur bætt úr verklagi

Umhverfisstofnun segir að með nýju verklagi hafi verið bætt úr verklagi við málsmeðferð stofnunarinnar á starfsleyfisumsóknum fyrir fiskeldi. Í gær felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi starfsleyfi sem Umhverfisstofnun hafði veitt Háafelli ehf. fyrir 6.800 tonna eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi. Í yfirlýsingu á vef Umhverfisstofnunar er bent á að þau atriði sem tilgreind eru sem helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi falli undir verksvið Matvælastofnunar og tekið fram að í úrskurðinum komi ekki fram ábendingar um efnislega annmarka á starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Hvað varðar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um fjarlægðarmörg sjókvía frá ósum segir í yfirlýsingunni að nefndin byggi niðurstöðu sína á veiðihagsmunum fremur en lífrænu álagi.

Úrskurðurinn gefur að mati Umhverfisstofnunar tilefni til að skýra nánar hlutverk einstakra stofnana hvað varðar fiskeldi en stofnunin hefur þegar komið á framfæri ábendingum þar um til nefndar um stefnumótun í fiskeldi sem starfar á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.

DEILA