Ók á gangavegg Vestfjarðaganga

Aðfaranótt laugardags óku lögreglumenn sem voru í eftirlitsferð fram á bíl sem hafði verið ekið á gangavegg Vestfjarðaganganna. Ökumaður sem var einn í bifreiðinni var þá meðvitundarlaus og með áverka, þó ekki lífshættulega. Kalla þurfti til sjúkrabíl og tækjabíl slökkviliðsins en bílstjórinn var fastur í bílnum. Hann komst fljótlega til meðvitundar. Hinn slasaði hlaut lærbrot. Í dagbók lögreglu kemur fram að að allt bendi til þess að tildrög slyssins megi rekja til þreytu og sifju. Ökumaðurinn var spenntur í öryggisbelti og öryggispúðar bifreiðarinnar virkuðu sem skyldi.

Í yfirliti lögreglunnar á Vestfjörðum um verkefni síðustu viku kemur fram að ekið hafi verið utan í ljósaskilti sem staðsett er í Breiðadalslegg Vestfjarðaganganna með þeim afleiðingum að skiltið brotnaði. Skiltið gefur til kynna hvort von sé á bifreið á móti. Atvikið virðist hafa átt sér stað annað hvort 22. eða 23. júní sl. Sá er tjóninu olli tilkynnti ekki um það til lögreglu eða Vegagerðarinnar. Af ummerkjum að dæma virðist sem um stóra bifreið hafi verið að ræða. Tjónið er töluvert á mannvirkjum í göngunum. Þeir sem kunna að búa yfir vitneskju um þetta eru hvattir til að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum.

Alls átta tilkynningar bárust til lögreglunnar, í vikunni, um að ekið hafi verið á búfé í umdæminu. Um var að ræða búfé í Álftafirði, í Vatnsfirði á Barðaströnf og í Dýrafirði.

Alls voru 57 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu, á Djúpvegi en einnig á Barðastrandavegi.

Við eftirlit stöðvuðu lögreglumenn akstur ökumanns fólksbifreiðar í miðbæ Ísafjarðar. Grunur vaknaði um að fíkniefni væru að finna í bifreiðinni og við leit fundust nokkur grömm af kannabisefnum sem farþegi í bifreiðinni viðurkenndi að eiga.

Tilkynnt var um annað umferðaróhapp sem varða á Örlygshafnarvegi þann 20. júní. Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni og hafnaði hún utan vegar, án þess þó að velta. Engin slys urðu á fólki en bifreiðin var óökufær eftir atvikið.

Um miðjan dag þann 20. júní mætti flutningabifreiðastjóri rauðri Volkswagen Caddysendibifreið á Hjallahálsi. Ökumaður sendibifreiðarinnar ók á öfugum vegarhelmingi og þurfti flutningabifreiðastjórinn að aka út af veginum til að forða árekstri. Þurfti að aðstoða flutningabifreiðastjórann að koma flutningabifreiðinni upp á veginn aftur. Lögreglan hvetur ökumenn til að sýna aðgæslu og taka tillit til annarra vegfarenda. Ekki liggur fyrir skráningarnúmer sendibifreiðarinnar né heldur hver ökumaðurinn var.

 

DEILA