Mun minni launahækkanir í Ísafjarðarbæ

Gísli Halldór Halldórsson.

Það sem af er ári hafa laun í Ísafjarðarbæ hafa hækkað mun minna en hækkanir launa á landsvísu. Laun í Ísafjarðarbæ hækkuðu um 2,7% fyrstu fimm mánuði ársins á meðan launagreiðslur hækkuðu nálægt 9% á landsvísu. Við fjárhagsáætlunargerð Ísafjarðarbæjar í haust var gert ráð fyrir meiri launahækkunum og þar af leiðandi hærri útsvarstekjum. Eins og áður hefur verið greint frá eru útsvarstekjur bæjarins umtalsvert minni en ráð var fyrir gert, 688 milljónir kr. á meðan áætlun gerði ráð fyrir 778 milljóna kr. útsvarstekjum.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir skýringu á lægri launatekjum megi væntanlega rekja til verkfalls sjómanna og
breyttu löndunarmynstri heimaskipa sem aftur helgast líklega af gengi krónunnar, fiskverði og breytingum í útgerð. Hann segir áætis vonir til að megnið af þessu afla skili sér í haust.

Aðspurður hvað hann áætlar að útsvarstekjur minnki mikið á ársgrundvelli frá því sem var áætlað í fjárhagsáætlun segir Gísli Halldór erfitt að segja til um það. „Ég tel hugsanlegt að útsvarið verði 30-50 milljónum kr. undir áætlun þegar upp er staðið. Á móti kemur að líkt og undanfarin ár eigum við von á að framlag Jöfnunarsjóðs verði mun hærra en áætlun gerir ráð fyrir. Auk þess er launakostnaður það sem af er talsvert lægri en áætlun og munar 33 milljónum kr. fyrir fyrstu 5 mánuði ársins.“

Hann segir að þessar upplýsingar hvetji bæinn til að betur um fjárhagsáætlunina og jafnfram verði reynt að fresta útgjöldum sem auðveldlega má fresta.

DEILA