Mugison nemur ný lönd

Tónlistarmaðurinn Mugison hefur lagt af stað í átta vikna tónleikaferð um landið, ásamt fjölskyldu sinni. Í vetur festi hann kaup á Sprinter sendibíl og er búið að sérútbúa hann sem blöndu af húsbíl og túrbíl. „Áætlunin er sett á staði sem ég hef ekki spilað á áður. Ég byrja á Hvanneyri, í Halldórsfjósi þar. Ég hef til dæmis aldrei komið áður á Hvanneyri, sem ég skammast mín fyrir,“ sagði hann í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær. Meðal annara nýrra tónleikastaða Mugison eru kirkja Samúels Jónssonar í Selárdal, Rauðisandur, Raufarhöfn, Kópasker og Vopnafjörður. Alls verða tónleikarnir 30 talsins.

Hann ætlar að enda túrinn á heimaslóðum. „Ég ætla að enda síðustu helgina fyrir vestan um verslunarmannahelgina. Þá tek ég Flateyri, Suðureyri og svo Rögnvaldarsal á Ísafirði. Þá er maður kominn heim“.

DEILA