Guðbjörg Stefanía kjörin forseti bæjarstjórnar

Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir.

Bæjarstjórn Bolungarvíkur kaus í gær Guðbjörgu Stefaníu Hafþórsdóttur í embætti forseta bæjarstjórnar. Guðbjörg Stefanía var að ljúka leyfi frá störfum í bæjarstjórn og tekur hún við forsetaembættinu af Helgu Svandísi Helgadóttur. Á fundinum var samþykkt harðorð bókun bæjarstjórnar vegna lokunar sýsluskrifstofunnar í Bolungarvík. Bókunin er svohljóðandi:

„Bæjarstjórn Bolungarvíkur mótmælir harðlega ákvörðun sýslumanns um að flytja  starfsemi  hans  frá Bolungarvík  og þeirri  fordæmalausu  ósk  hans  um  að breyta  reglugerð  1151/2014  og  með  því  fá  leyfi  ráðherra  til  að  hætta  alfarið þjónustu  við  íbúa  í  Bolungarvík.  Með  þessu  er  m.a.  verið  að  leggja  niður þjónustu Tryggingarstofnunar, en þeir sem nýta sér þjónustuna hennar eru fyrst og  fremst  eldri  borgarar og  öryrkjar sem  treysta á góða og öfluga  þjónustu í heimabyggð.

Þessi ákvörðun er jafnframt svik við hina nýju þjónustumiðstöð í Bolungarvík. Góð sátt var um þjónustumiðstöðina sem sett var á laggirnar sumarið 2016 eftir að mikil áföll dundu á opinberri þjónustu í Bolungarvík með fyrirhugaðri lokun á póst-og bankaþjónustu ásamt því að sýslumannsembættið í Bolungarvík var lagt niður stuttu áður. Það er ótrúleg staðreynd að aðeins nokkrum mánuðum eftir að sýslumannsembættið á Vestfjörðum tók þátt í að opna þjónustumiðstöðina með pompi og prakt skuli embættinu hafa snúist hugur og kjósa að loka útibúinu.

Bæjarsjórn hafnar algjörlega þeim rökum sýslumanns að þessi aðgerð sé nauðsynleg til að draga úr   kostnaði. Húsnæðið er eitt hagkvæmasta skrifstofuhúsnæði á landinu og hentar vel til starfseminnar hér í Bolungarvík. Það er óásættanlegt að íbúar Bolungarvíkur skulu einir bera kostnað af framúrkeyslu embættisins og er í algjöru ósamræmi við fyrri yfirlýsingar embættisins og ráðherra      þegar breytingar voru gerðar á sýslumannsembættunum á landinu. En fram kom hjá innanríkisráðherra þegar Sýslumannsembættið á Vestfjörðum var stofnað að „Embættin verða í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra“.

Tillaga Sýslumannsins á Vestfjörðum til dómsmálaráðherra um að honum verði leyft að hætta alfarið þjónustu við íbúa Bolungarvíkur eins og gert var ráð fyrir í þeirri reglugerð sem sett var þegar Sýslumannsembættið í Bolungarvík var lagt niður er fordæmalaus. Breyting á reglugerðinni væru svik við Bolungarvík og Vestfirði. Þegar embætti Sýslumanns á Vestfjörðum var stofnað árið 2014 og embætti Sýslumanns í Bolungarvík var lagt niður kom fram skýrt loforð innanríkisráðherra um að efla og styrkja embætti sýslumannaum land allt. Ekkert hefur verið gert til að efna það  loforð. Í stað þess hefur verið dregið úr starfsemi,  starfsfólki  fækkað, verkefni flutt á höfuðborgarsvæðið og fjármagn skorið niður.

Þessi tillaga Sýslumannsins á Vestfjörðum er því mikil vonbrigði og enn ein aðförin að opinberri þjónustu við íbúa hér á svæðinu. Undanfarin ár og áratugi hefur opinberum störfum fækkað jafnt og  þétt og  þjónusta verið flutt burt af svæðinu. Bæjarsjórn skorar  á  dómsmálaráðherra  að  neita  alfarið  að  breyta reglugerð 1151/2014 og standa þannig vörð um nauðsynlega þjónustu í heimabyggð og beita sér frekar fyrir því að Sýslumannsembættið á Vestfjörðum verði eflt í takt við fyrri loforð ráðherra.“

 

 

 

DEILA