Frekari leyfisveitingar forsenda fyrir samkeppnishæfni

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

„Frekari leyfisveitingar eru forsenda þess að fyrirtækið nái ákveðinni stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum,“ segir Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish. Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð sem birtist í Sóknarfæri, fylgiriti Morgunblaðsins.

Starfsemin fer nú fram víða á Vestfjörðum; á Ísafirði, í Dýrafirði, á Flateyri og á Tálknafirði og starfsmenn eru um 40 talsins auk þess sem 10 til 30 starfsmenn vinna við uppbyggingu á nýrri seiðaeldisstöð félagsins. Arctic Fish er nú með starfsleyfi fyrir regnbogasilung en áformar að skipta yfir í lax.

„Þegar við hófum okkar starfsemi voru við með 200 tonn eldisleyfi sem síðar var aukið upp í 2.000 tonn. Það tekur gríðarlega langan tíma að vinna við leyfisumsóknir, mikil undirbúningsvinna að baki áður en leyfi eru gefin út. Eldisleyfi hafa mikið verið í umræðunni undanfarið og af henni má ráða að verið sé að veita fjöldann allan af leyfum en svo er ekki. Síðast var veitt sjókvíaeldisleyfi fyrir um það bil ári síðan, en það var stækkun í Arnarfirði. Við höfum verið að vinna að stækkun í Dýrafirði og sótt um leyfi til þess, vinnslutíminn á því hefur verið rúm 5 ár,“ segir Sigurður

DEILA