Fjölbreytt LÚR framundan

LÚRari hafa verið iðnir við veggskreytingar.

LÚR, eða Lengst út í rassgati, er listahátíð ungs fólks á Vestfjörðum en hún er haldin á Ísafirði daganna 20-25.júní. Þetta er fjórða árið í röð sem hátíðin er haldin.

Ungir sjálfboðaliðar sjá um skipulagningu hátíðinnar undir handleiðsu Menningarmiðstöðvarinnar Edinborg. Yfir hátíðina verða áhugaverðar vinnusmiðjur í boði, tónlist og ýmsar sýningar listamanna frá svæðinu, en einnig kemur fjöldi frábærra listamanna frá höfuðborgarsvæðinu.

Dæmi um smiðjur er vegglistasmiðja þar sem samspil listar og náttúru er höfð að leiðarljósi. Þátttakendur mála vegglistaverk á vegg í Bolungarvík, en vegglist fyrri ára má finna víðsvegar um Ísafjarðarbæ. Einnig verður boðið upp á tónlistarspunasmiðju sem haldin verður tvö kvöld og verður afraksturinn síðan sýndur á föstudagskvöldinu. Á föstudagskvöldinu verður einnig uppistand frá ungum og efnilegum uppistandara.

Á hátíðinni verða haldnir bæði opnunar- og lokatónleikar hátíðarinnar, en meðal listamanna sem fram koma eru Between Mountains, Gróa, Freyja Rein, Pashn o.fl. en öll eru þau ungt og frambærilegt tónlistarfólk. Yfir helgina munu listamenn einnig sýna verk sín, en meðal þeirra sem sýna list sína eru Elma Guðmundsdóttir. Heimir Snær Sveinsson mun síðan sýna myndbandsverk en hann er einnig hluti af Flying Bus stuttmyndagerðarteymi sem sýnir stuttmyndir á hátíðinni.

Nánari upplýsingar má finna á Facebooksíðu LÚR festival eða á vefsíðu hátíðinnar lurfestival.com.

DEILA