Erum í öldudal

Tálknafjörður.

Íbúum í Tálknafjarðarhreppi hefur fækkað um þriðjung á tæpum tveimur árum. Ársreikningur sveitarfélagsins var samþykktur í vikunni og rekstrarniðurstaða síðasta árs var neikvæð um 45 milljónir króna. Indriði Indriðason, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, segir að haustið 2015 hafi fiskvinnslan Þórsberg ehf. hætt starfsemi og það hafi verið þungt högg fyrir sveitarfélagið. „Þrátt fyrir þessa íbúafækkun þá er ekki að fækka í skólanum hjá okkur. Fyrst og fremst fækkaði vinnandi höndum sem endurspeglast í því að útsvarstekjur hafa dregist töluvert saman hjá okkur á meðan þær hafa vaxið í flestum sveitarfélögum,“ segir Indriði.

Indriði Indriðason.

Hann bendir einnig á að útgjöld sveitarfélagsins hafi hækkað vegna samningsbundinna launahækkana og að samningur Tálknafjarðarhrepps við Hjallastefnuna um rekstur grunn- og leikskólans er tengdur við launavísitölu. Indriði segir að í eðlilegu árferði ættu auknar útsvarstekjur að jafna þennan kostnaðarauka út, en það hafi ekki gerst þar sem stærsti þorpsins hætti starfsemi og vinnandi fólki fækkaði verulega. Lokun Þórsbergs hafði ekki bara neikvæð áhrif á útsvarstekjur sveitarfélagsins, heldur drógust tekjur hafnarinnar einnig saman.

Indriði segir að fleira komi til. Til dæmis hafi verið farið í borun á heitu vatni á árunum 2012 og 2013 og hreppurinn hafi átt óuppgert við Orkusjóð alls átta milljónir kr. sem var ákveðið að gjaldfæra að fullu á síðasta ári.

„Við erum í öldudal en erum staðráðin í að ná vopnum okkar aftur. Það eru mörg tækifæri að skapast í tengslum við uppbyggingu í fiskeldi og við ætlum að nýta okkur þau,“ segir Indriði.

DEILA