Eina landsvæðið þar sem íbúum fækkaði

Hinn 1. janúar 2017 voru íbúar landsins 338.349. Þeim fjölgaði um 1,8% frá sama tíma árið áður eða um 5.820 einstaklinga. Árið 2016 fæddust 4.034 börn en 2.309 manns létust og fæddir umfram dána voru því 1.725. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofunnar. Þá fluttust 6.889 utan en 10.461 til landsins. Aðfluttir umfram brottflutta voru því 4.069 árið 2016.

Í upphafi árs 2017 voru 60 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri. Auk þeirra voru 35 smærri byggðakjarnar með 50 til 199 íbúa. Alls bjuggu 317.067 í þéttbýli 1. janúar síðastliðinn og hafði þá fjölgað um 5.070 frá sama tíma ári fyrr. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu alls 21.282.

Fjölmennasta sveitarfélagið var Reykjavík með 123.246 íbúa og Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins með 46 íbúa.

Árið 2016 fækkaði fólki í 26 sveitarfélögum og á einu landsvæði af átta, Vestfjörðum.

Erlendir ríkisborgarar voru 30.275 hinn 1. janúar 2017 og voru Pólverjar langfjölmennastir. Alls höfðu 13.795 einstaklingar pólskt ríkisfang eða 45,6% allra erlendra ríkisborgara. Alls voru 46.516 landsmanna árið 2016 fæddir erlendis, eða 13,7% mannfjöldans, fleiri en nokkru sinni.

DEILA