Bjartmar og brenna

Þær eru með ýmsu móti en þó áþekkar bæjarhátíðirnar á norðanverðum Vestfjörðum en þar sem annarsstaðar eru þær tækifæri til samveru íbúa og gesta. Það er Götuveislan á Flateyri sem ríður á vaðið helgina 23. – 25. júní og hefst dagskráin á föstudagskvöldinu með tónleikum Bjartmars á Vagninum. Það eru nýir húsbændur á Vagninum sem standa fyrir tónleikunum og líklegt að aðdáendur Bjartmars geri sér ferð milli fjarða til að hlýða á kappann.

Dagskrá götuveislunnar verður með hefðbundndu hætti að sögn undirbúningsnefndar, Skósveinaþemað frá fyrra ári er endurnýtt og vonast er eftir að bæjarbúar skreyti hver sem betur getur í gulu og bláu að hætti þeirra bræðra. Miðnæturhlaupið breytist í morgunhlaup á laugardegi og hinir ýmsu húsráðendur bjóða heim í kaffi. Grillveisla og brenna verður á sínum stað og búast má við einhverju skralli á Vagninum á laugardeginum. Nánar má fylgjast með dagskránni á facebook síðu viðburðarins þar sem dagskráin mun birtast.

DEILA