Arkiteó hannar stækkun leikskólans

Bolungarvíkurkaupstaður hefur samið við Arkiteó ehf. um hönnun á breytingum á leikskólanum Glaðheimum. Breyta á núverandi húsnæði auk þess að byggja 290 m² nýbyggingu. Þegar framkvæmdum lýkur er gert ráð fyrir að hinn nýji leikskóli geti tekið 70 börn í vistun og mun leikskóladeildinni í Lambhaga verða lokað á sama tíma. Við undirskrift samnings við Arkiteó sagði Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri að nýr og endurbættur leikskóli Glaðaheima verði bylting í leikskólamálum Bolvíkinga og muni bæta aðbúnað fyrir börn og starfsfólk. „Fyrir er í Bolungarvík afar gott starf innan leikskólans og með þessari framkvæmd skapast tækifæri til að sækja fram í þjónustu við barnafjölskyldur,“ sagði Jón Páll.

Aðaluppdráttum á að skila í ágúst 2017 og fullkláruðum gögnum í nóvember 2017.

Arkiteó var stofnað árið 2004 til að koma á fót hönnunarhverfri teiknistofu. Arkiteó hefur unnið til margra verðlauna á sínu sviði og leitast við að færa alþjóðlegar hugmyndir og sjónarmið í hönnun til Íslands með samvinnu við fagmenn og listamenn um allan heim. Á sama tíma hefur stofan ávallt sótt innblástur í íslenskan menningararf.