19. júní – merkisdagur í sögu þjóðarinnar

Hátíðarhöld við Alþingishúsið 19. júní 1919.

Fyrir 102 árum, þann 19. júní 1915,  staðfesti konungur lög frá Alþingi sem færðu um tólfþúsund íslenskum konum, sem voru 40 ára og eldri, kosningarétt til Alþingis. Lögin færðu einnig kosningarétt um fimmtánhundruð vinnumönnum, sem voru 40 ára og eldri, og líka um þúsund karlmönnum sem áður höfðu ekki haft réttinn vegna skilyrða um útsvarsgreiðslu.

19. júní hefur verið kallaður kvennadagurinn og kvenréttindadagurinn frá árinu 1915. Þann dag hafa íslenskar konur og íslensk kvennahreyfing litið til baka og glaðst yfir fengnum rétti.

Sama dag fyrir 102 árum var gefinn út konungsúrskurður þar sem fáninn var formlega staðfestur sem sérfáni Íslendinga. Íslenski fáninn er þjóðfáni Íslands. Það var Matthías Þórðarson, er síðar varð þjóðminjavörður, sem sýndi Stúdentafélagi Reykjavíkur hugmynd sína að fánanum árið 1906. Fáninn var hvítur kross á bláum feldi með rauðum krossi innan í hvíta krossinum. Litirnir áttu að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn. Þjóðfáninn var svo opinberlega staðfestur með konungsúrskurði þann 19. júní 1915.

DEILA