17,5% sam­drátt­ur á 12 mánuðum

Löndun í Bolungarvík.

Aflaverðmæti íslenskra skipa í mars var 14,8 milljarðar króna sem er 3% minna en í mars 2016. Verðmæti botnfiskaflans nam 9,6 milljörðum sem er 8,3% samdráttur miðað við mars 2016. Af botnfisktegundum var verðmæti þorskafla mest eða 6,6 milljarðar. Verðmæti uppsjávarafla, sem var að megninu til loðna, nam ríflega 4,5 milljörðum í mars sem er 18,3% aukning samanborið við mars 2016. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Verðmæti afla sem seldur var í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam tæpum 9,6 milljörðum í mars sem er 3,8% aukning samanborið við mars 2016. Verðmæti afla sem keyptur var á markaði til vinnslu innanlands nam rúmum 1,7 milljörðum og dróst saman um 2,7%. Aflaverðmæti sjófrystingar nam tæpum 3,1 milljarði sem er 18,4% samdráttur miðað við mars 2016.

Á 12 mánaða tímabili frá apríl 2016 til mars 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa tæpum 118 milljörðum króna sem er 17,5% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.

DEILA