Vísindin í óvæntu ljósi

Háskólalestin er fræðandi og skemmtileg.

Nemendur í eldri bekkjum grunnskólanna á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri sækja skemmtileg námskeið úr Háskóla unga fólksins þegar Háskólalestin heimsækir þessi byggðarlög dagana 19. og 20. maí. Jafnframt verða vísindin sýnd í óvæntu og litríku ljósi í vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna sem fram fer á Suðureyri í sömu heimsókn.

Ferð Háskólalestarinnar á norðanverða Vestfirði er sú þriðja í maímánuði en þegar hefur lestin heimsótt Vík í Mýrdal og Sandgerði. Líkt og í fyrri heimsóknum fer dagskrá lestarinnar fram á föstudegi og laugardegi í þeim bæjarfélögum þar sem lestin nemur staðar.

Á morgun föstudag munu kennarar í Háskólalestinni taka að sér kennslu í Grunnskólanum á Flateyri og bjóða nemendum í 5.-10. bekk á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri upp á námskeið í blaða – og fréttamennsku, eðlisfræði, efnafræði, stjörnufræði og vindmyllum.

Á laugardaginn færir Háskólalestin sig svo yfir til Suðureyrar þar sem efnt verður til glæsilegrar vísindaveislu í íþróttahúsinu og grunnskólanum milli kl. 11 og 15. Þar geta gestir spreytt sig á alls kyns þrautum og hugarleikfimi á vegum Vísindavefsins, skellt sér í ferð um himingeiminn í stjörnutjaldinu, kynnt sér japanska menningu og tungu, skoðað óvenjulegar steintegundir, kynnst undrum efnafræðinnar, prófað vindmyllusmíði og gert ýmis konar óvæntar uppgötvanir.

Aðgangur að Vísindaveislunni er ókeypis og allir velkomnir.

Háskólalestin hefur heimsótt um 30 staði víða um land frá því að henni var ýtt af stað á aldarafmælisári skólans árið 2011. Lestin brunar nú um landið sjöunda árið í röð en áhöfnin hefur frá upphafi lagt áherslu á lifandi og skemmtilega miðlun vísinda til fólks á öllum aldri.

Flateyri, Suðureyri og Þingeyri eru síðustu áfangastaðir Háskólalestarinnar í maímánuði en fyrirhugaðri heimsókn til Patreksfjarðar dagana 26. og 27. maí hefur verið frestað um sinn.

DEILA