Vélarvana norður af Rekavík

Vitinn á Straumnesi.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á fimmta tímanum í gær neyðarkall frá báti sem var orðinn vélarvana norður af Rekavík bak Látur á Hornströndum. Einn maður var um borð. Bátinn rak í átt að Straumnesi en þar er stórgrýtt fjara og straumþung röst og því ljóst að talsverð hætta var á ferðum. Kallað var eftir aðstoð nærliggjandi báta og björgunarsveitir á Ísafirði og í Bolungarvík kallaðar út. Gunnar Friðriksson, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Ísafirði, og Gísli Hjaltason björgunarbátur björgunarsveitarinnar Ernis í Bolungarvík, héldu þegar á staðinn. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF einnig send af stað. Þegar báturinn var innan við hálfa sjómílu frá Straumnesi breyttist rekið svo hann rak norður fyrir. Gísli Hjaltason kom fyrstur á vettvang og tók bátinn í tog.

TF-LIF var komin í Ísafjarðardjúp þegar ljóst varð að skipverjinn á bátnum væri óhultur. Henni var þá snúið við austur á Langanes þar sem maður sem var við eggjatöku í Læknesstaðabjargi var lentur í sjálfheldu eftir að hafa slasast á fæti. Þá voru lögregla og björgunarsveitir á svæðinu komnar á vettvang. Á leiðinni þangað barst stjórnstöð hins vegar beiðni frá Neyðarlínunni um aðstoð vegna bílsslys í Vatnsdal, rétt vestan Blönduóss. Þyrlan lenti við slysstaðinn í Vatnsdal um sjöleytið og var farið með þá slösuðu á Sjúkrahúsið á Akureyri.

DEILA