Tilfinningarík stund

Annika Olsen, borgarstjóri í Þórshöfn, afhjúpaði listaverkið sem er eftir Jón Sigurpálsson.

Eins og greint var frá í síðustu viku fóru fulltrúar Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps í opinbera heimsókn til Þórshafnar í Færeyjum í síðustu viku. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að það hafi verið tilfinningarík stund fyrir súðvískt samfélag að afhenda Færeyingum minnisvarða um vináttu færeysku og íslensku þjóðanna. „Það var gott að geta faðmað frændþjóð og þakkað fyrir ómetanlegan stuðning þegar svartnættið var ríkjandi,“ segir Pétur. Í eftir snjóflóðin mannskæðu á tíunda áratugnum stóðu Færeyingar í tvígang fyrir þjóðarsöfnun og söfnunarféð var nýtt til að reisa leikskóla í Súðavík og á Flateyri. „Leikskólinn er hjartað í Súðavík, þökk sé Færeyingum,“ segir Pétur.

Í ferðinni var tækifærið notað og sveitarstjórnarfulltrúar kynntu sér laxeldi í Færeyjum sem er afar framþróað. „Það er ómetanlegt fyrir okkur að sjá þessa starfsemi með eigin augum. Við fengum að sjá alla keðjuna, allt frá seiðaframleiðslu til fóðurframleiðslu og litum við í hátæknivinnslu þar sem 800 manns vinna á vöktum við að búa til verðmæti úr eldislaxi.“

Pétur segir það upplýsandi að sjá hvernig gæti ræst úr þessari atvinnuuppbyggingu hér á landi og segir að Íslendingar geti lært margt af Færeyingum.

„Þá gerum við miklar kröfur til eftirlits, dreifum starfseminni milli ólíkra byggðakjarna, sjáum til þess að sveitarfélögin fái trausta og góða tekjustofna af framleiðslunni, sköpum störf og velferð í kringum þessa uppbyggingu og byggjum eðlilega og almennilega innviði, vegi og göng, svo mögulegt sé að láta út rætast.  Eftir ferðina er ég sannfærður um að þetta sé mögulegt, fyrirmyndin er til staðar,“ segir Pétur.

DEILA