Sunna hrindir af stað söfnun fyrir ómtæki

Það eru margar góðar gjafir sem leynast í bögglahappdrættinu á Vorfagnaðinum og nú safnar Sunna fyrir stórum böggli fyrir samfélagið á Vestfjörðum.

Kvenfélagið Sunna hefur hrint af stað söfnun fyrir nýju ómtæki fyrir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Sárlega vantar nýtt tæki á stofnunina, en það nýtist til margra verka líkt og fósturskoðana, rannsókna og sjúkdómsgreininga. Tæki sem þetta er mikið notað af læknum stofnunarinnar, ljósmæðrum og sérfræðilæknum sem koma með reglulegu millibili á HVEST. Kostnaður við tækjakaupin er um 6 m.kr., að virðisaukaskatti ótöldum og því eru allir hvattir til að leggja söfnuninni lið og gefur Sunna 500.000 til söfnunarinnar auk þess sem félagið mun halda utan um hana. Búið er að stofna reikning sérstaklega ætlaðan til verksins sem er: 0556-14-402000, kt: 470510-2260. Frekari upplýsingar gefa Álfhildur formaður á thorh@snerpa.is eða Stella gjaldkeri á heydalur@heydalur.is

 

Það er ávallt mikið fjör á vorfagnaði Sunnu.

Ár hvert láta Sunnukonur verkin tala og færa gjafir til aðila í nærumhverfi sínu og á síðasta ári gáfu þær til að mynda hjartastuðtæki á Litlabæ og lyfjadælu á hjúkrunarheimilið Eyri. Ein helsta fjáröflun félagsins er hinn árlegi vorfagnaður Sunnu sem haldinn er í Heydal og fer hann fram laugardaginn 24. júní í ár. Gleðin hefst klukkan 20:30 og verður boðið upp á heimabakkelsi og kaffi. Þá verður einnig skemmtun með leynigesti og ball þar sem Stebbi Jóns sér um fjörið og ekki má gleyma hinu sívinsæla bögglahappdrætti þar sem marga glæsilega vinninga er að finna. Miðar verða seldir við innganginn og er miðaverð 3000 krónur. Hægt er að slá skemmtikvöldinu upp í örlítið dekur og bóka gistingu í Heydal sýnist gestum svo.

Kvenfélagið Sunnu skipa Djúpkonur og hefur konum í félaginu fjölgað mikið hin síðustu ár og eru þær nú 29, sem er skemmtilegt mótvægi við fólksfækkun sem verið hefur í Ísafjarðardjúpi. Það eru sumarhúsaeigendur, fyrrum íbúar og konur sem eiga ættir að rekja í Djúpið, sem hafa verið duglegar að skrá sig í félagið.

DEILA