Sterk byrjun hjá Vestra

Vestri er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðir 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Á laugardaginn lék Vestri við Víði frá Garði á Torfnesvelli. Eftir einungis 10 mínútur komst Vestri yfir þegar leikmaður Víðis varð fyrir því óláni að skora í eigið mark. Vestramenn létu kné fylgja kviði og á 23. mínútu var brotið á leikmanni Vestra í vítateig Víðis og Hollendingurinn Kevin Alson Schmidt skoraði úr vítaspyrnunni. Fjórum mínútum síðar kom Pétur Bjarnason Vestra í 3-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Í seinni hálfleik slökuðu heimamenn á klónni og Víðir náði að klóra í bakkann á 82. mínútu með sjálfsmarki Vestra. Ekki var skorað meira og 3-1 sigur Vestra í höfn sem hefur eins og áður segir unnið báða leiki sína.

Um næstu helgi leikur Vestri við Knattspyrnufélag Vesturbæjar á KR vellinum.

Magni Grenivík og Vestri eru í efstu sætum deildarinnar með 6 stig.

DEILA