Óskað eftir sjálfboðaliðum í ruslhreinsunarferð á Hornstrandir

Dagana 26.-27. maí er áætlað að fara í árlega ruslahreinsun á Hornstrandir ef veður og verkefni varðskips leyfa, líkt og greint var frá hér á vefnum nýverið. Nú er óskað eftir duglegum sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir í göngu og hörkuvinnu þessa tvo daga. Fyrirkomulag verður þannig að lagt verður af stað frá Ísafirði klukkan 14 áleiðis til Hrafnfjarðar í Jökulfjörðum föstudaginn 26 maí. Þaðan tekur við nokkuð erfið ganga, hugsanlega töluvert í snjó í um 5 tíma yfir Bolungavíkurheiði yfir í Bolungavík á Ströndum þar sem verður gist yfir nótt, annaðhvort í húsum eða í eigin tjöldum.

Snemma á laugardagsmorgni hefst síðan hreinsunin í Bolungavík og hugsanlega í Barðsvík ef tími vinnst til og mun hún standa frameftir degi. Nesti verður í boði fyrir sjálfboðaliðana og þegar hreinsun er lokið seinnipartinn verður slegið upp grillveislu um borð í varðskipinu Þór sem mun sigla með hópinn heim til Ísafjarðar en áætlað er að koma seint að kvöldi laugardags í höfn á Ísafirði.

Umsóknir berist á upplysingafulltrui@isafjordur.is

annska@bb.is

DEILA