Önuglyndur og óþólandi smámunasamur Svíi

Sigurður fer á kostum í hlutverki Ove.

Einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Sigurður Sigurjónsson, heimsækir Ísafjörð á morgun þegar einleikurinn Maður sem heitir Ove verður sýndur í Edinborgarhúsinu. Sýningin hefur gengið fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu í vetur og nú gefst áhorfendum á Ísafirði og nærsveitum tækifæri til að njóta samvista við geðstirða Svíann Ove sem hefur heillað fólk um allan heim.

Leikritið fjallar um hinn 59 ára gamla Ove – sem sumir myndu kalla „dæmigerðan Svía“ – reglufastan nákvæmnismann, óþolandi smámunasaman og önuglyndan. Þegar ólétt kona að nafni Parvaneh flytur með fjölskyldu sína í götuna er eins og Ove byrji að missa tökin á öllu. Maður sem heitir Ove er bráðfyndinn og nístandi einleikur um sorg og gleði, einangrun og nánd.

Uppsetning Þjóðleikhússins hlaut einróma lof gagnrýnenda sem höfðu meðal annars þetta að segja:

„Það er full ástæða til þess að hvetja leikhúsáhorfendur til þess að sjá þennan vel heppnaða einleik…“
**** DV, B.L.

„Sigurður Sigurjónsson er ekkert annað heldur en einn af albestu leikurum þjóðarinnar. Í hlutverki Ove sýnir hann fádæma tækni og lipra tímasetningu“
**** Fréttablaðið, S.J.

Þjóðleikhúsið hefur í vetur lagt aukna áherslu á að færa leiklistina nær áhorfendum á landsbyggðinni, og hefur Ove þegar verið sýndur á Akureyri, Egilsstöðum og í Skagafirði. Einnig var barnaleikritið Lofthræddi örninn Örvar frumsýnt í Vestmannaeyjum og sýnt í Edinborgarhúsinu og víðsvegar um landið í kjölfarið.

DEILA