Leigugreiðslur bókfærðar sem skuld Norðurtangans

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

Ísafjarðarbær hefur greitt Norðurtanganum ehf. 2,6 milljónir kr. í leigu fyrir geymsluhúsnæði fyrir Byggðasafn Vestfjarða. Þetta kemur fram í svari Gísla Halldór Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, við fyrirspurn Daníels Jakobssonar, oddvita Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn. Fyrr í vetur sagði Gísli Halldór í grein á BB að bærinn hafi ekki greitt leigu og muni ekki greiða leiga, fyrr en verki húseigandans væri lokið samkvæmt skilalýsingu sem fylgdi leigusamningi.

Gísli Halldór segir í samtali við BB hann hafi beitt ónákvæmu orðalagi. „Þegar Byggðasafnið fer inn í Norðurtangann síðasta sumar byrjaði bærinn að greiða leigu. Þegar í ljós kom að húsnæðið var ekki tilbúið voru greiðslurnar stöðvaðar og við lítum þannig á að Norðurtanginn skuldi okkur þennan pening og upphæðin fari upp í framtíðarleigugreiðslur. Í bókhaldi bæjarins hefur þetta ekki verið bókað sem greidd leiga, heldur skuld Norðutangans við bæinn þar sem húsnæðið var ekki tilbúið. Það getur verið að einhverum finnist ég vera að snúa út úr, en þetta er skýrt í mínum huga þó ég hefði getað orðað þetta betur,“ segir Gísli Halldór.

Byggðasafnið ákvað að rifta leigusamningnum og ætlar ekki inn í Norðurtangann, en Héraðsskjalasafnið og aðrar stofnanir bæjarins ætla með sínar geymslur í húsið. Gísli Halldór segir að bærinn hafi endursamið við eiganda hússins um tæplega helming af því sem áður var rætt um. „Norðurtanginn kom til móts við bæinn og við erum að ljúka samningum og þessar greiðslur sem voru greiddar á síðasta ári fara væntanlega upp í leigu á þessu ári,“ segir Gísli Halldór.

DEILA