Hlynur frá Bæjaralandi breytir framtíðinni á Íslandi

Ludwig Pertl.

Lítið fræ verður að stórum skógi.

Það er hinn raunverulegi leyndardómur vinabæjasamstarfs okkar við Ísafjörð.

Sameiginlegi skógurinn okkar, svo leyndardómsfullur og spennandi sem hann er, hefur ekki vakið mikla athygli ennþá en það mun hann gera í framtíðinni! Fyrir utan öll hin verkefnin okkar, eins og t.d. öflug nemendaskipti milli sveitarfélaganna á síðustu árum sem eru ekki síður gífurlega mikilvægt framtíðarverkefni.

Þrautreyndir skógræktarmenn frá Kaufering og Ísafirði, þeir Ludwig Pertl og Sæmundur Þorvaldsson hafa frá upphafi verið mjög fúsir og reiðubúnir í þetta sameiginlega skógræktarverkefni.

Árangurinn er stórkostlegur. Eiginlega ótrúlegur. Farið hefur verið í mörg stór átaksverkefni til að rækta nýja skóga á Íslandi þar sem áður var lítið um trjágróður. Það var sameiginlegt markmið vinabæjarsamstarfsins frá upphafi, einnig okkar Sæmundar. Loftslagsbreytingar hafa líka haft áhrif á Íslandi og hættan á jarðvegseyðingu fer greinilega vaxandi.

Þar eð hingað til hafa aðallega barrtré (Síberíulerki og önnur barrtré frá Kanada) verið flutt til Íslands var ákveðið að bæta nú við lauftrjám til að auka frjósemi jarðvegsins.

Trjátegundir sem vaxa í Ölpunum, s.s. fjallahlynur, linditré, askur og beyki geta gegnt hér mikilvægu hlutverki. Þar sem veðurskilyrði eru svipuð í Alpafjöllum og á Íslandi, spurðist Ludwig Pertl fyrir um það hjá gróðrarstöð í Laufen hvort hægt væri að fá heppilega stofna hjá þeim. Síðan þurfti að sækja um nauðsynleg leyfi hjá íslenskum skógræktaryfirvöldum og vorið 2014 var hægt að senda fyrstu sendingu af fræi til Íslands. Sáningin tókst frábærlega og þannig var hægt að planta u.þ.b. 8000 lauftrjám á Íslandi.

12 manna hópur frá Kaufering fór til Ísafjarðar í júlí 2016 og tók þar þátt í hátíðahöldum í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins og einn liður í þeim var sameiginleg gróðursetning á Þingeyri. Fyrir ofan þorpið vex nú fyrsti bæverski skjólskógurinn á Íslandi með fjórum tegundum lauftrjáa frá Ölpunum. Árið 2015 plöntuðu bæjarstjórarnir Erich Püttner og Gísli Halldór Halldórsson einnig samanburðarskógi í Kaufering.

Gróðursetning ofan Þingeyrar.

Frá því í nóvember 2016 hefur Markaðurinn í Kaufering verið starfandi aðili að EU-INTERREG verkefninu fyrir Alpasvæðið undir titlinum: „Links4Soils“.  Kaufering í samstarfi við rannsóknarstofu LWF- Weihenstephan bauð Skógrækt ríkisins á Íslandi að starfa með sér og fylgjast með verkefninu.

Þannig hafa báðir aðilar sama markmið, að skapa barnabörnum okkar meiri lífsgæði á heimaslóðum; sjálfbæra aðlögun að náttúruöflunum, að styrkja heilbrigðan lifandi jarðveg og vistkerfi. Að sjálfsögðu kemur Sæmundur Þorvaldsson frá Ísafirði til Þýskalands til að taka þátt í vinnudögum í júní. Þróunin er mjög spennandi og við væntum þess að árið 2100 verði öflugur laufskógur farinn að veita gott skjól á Þingeyri og önnur nauðsynleg langtímaverkefni verði farin að skila góðum árangri á ýmsum sviðum .

Ludwig Pertl

DEILA