Gerræðislegt inngrip að taka Baldur

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Það er gerræðislegt inngrip hjá stjórnvöldum að leggja niður ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð í maí. Breiðafjarðarferjan Baldur hefur leyst Herjólf af á meðan skipið er í slipp. Jóhann Svavarsson, hótelstjóri á Hotel West á Patreksfirði segir þessa ákvörðun Vegagerðarinnar vera mikið inngrip í ferðaþjónustu á jaðarsvæðum.

Í samtali við fréttastofu RÚV segir Jóhann verulegt um afpantanir vegna þessa.

„Fólk var búið að bóka gistingu hjá okkur, fólk sem var að keyra fyrir Snæfellsnes og taka Baldur yfir og gista hjá okkur, fara á Látrabjarg og keyra svo malarveginn suður úr. Þetta fólk annaðhvort hætti við eða keyrði fram og til baka, útlendingar mjög óánægðir með þetta, við fengum alveg helling af kvörtunum að þetta væri svo langt að þeir hefðu aldrei farið út í þetta ef þeir hefðu áttað sig á því, þannig að það er bara verulegt af afbókunum út af þessu hjá okkur,“ segir Jóhann.

DEILA