Flugfélag Íslands yfirgefur íslenskuna

Flugfélag Íslands mun frá og með deginum í dag taka upp nýtt nafn, Air Iceland Connect. Mun flugfélagið, sem hefur hingað til heitið Air Iceland á ensku, hætta að nota nafnið Flugfélag Íslands.

Ástæður fyrir nafnbreytingunni eru nokkrar að því er segir í tilkynningu frá flugfélaginu. Aukin umsvif á erlendum mörkuðum, fjölgun erlendra ferðamanna sem nýta sér þjónustu flugfélagsins og aukið samstarf við Icelandair.

Þá hefur tvöfalt nafnakerfi félagsins „þýtt talsverðan kostnaðarauka og valdið einhverjum farþegum óþægindum og orsakað misskilning.“

„Við höfum notað nafnið Air Iceland um árabil en með því að bæta við orðinu Connect, eða tengja, sýnum við tengingu við íslenska náttúru og áfangastaði, tengingu við okkar erlenda áfangastaði á borð við Grænland, Skotland og Norður-Írland og aðgreinum okkur aðeins frá Icelandair,“ er haft eftir Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.

DEILA