Fjórar sögur um dauða, sorg, vinskap og upprisu

Pétur Georg Markan

Borgarstjóri Þórshafnar, varalögmaður Færeyinga, systur og bræður Færeyingar,

Ég flyt ykkur kveðju frá Vestfjörðum, ég færi ykkur samhug, vinafaðmlag og þakklæti frá Súðavíkurhreppi.

Af meðvitund um eigin vanmátt  á mót örlagaríkri sögu, sorg og upprisu samfélaga, ástvinamissi og vinagjöfum, ætla ég að segja ykkur fjórar sögur í dag.

Fyrsta sagan er af dauðahamförum, örlögum smáþorps á Vestfjörðum og því sem gerist þegar guð lítur undan fólkinu sínu.  Þann 16. janúar 1995, reið yfir Súðavík snjóflóð, sem sem klauf byggðina, hreif með sér 14 líf í dauðann, þar á meðal átta börn. Átta vaxtarsprotar, börn sem aldrei urðu menn.

Hús og fyrirtæki gjöreyðilögðust og líf þeirra sem byggðu Súðavík umbreyttist. Fyrir og eftir er skiptingin á lífshlaupi þeirra sem lifðu flóðið.

Önnur sagan er um sorg sem er þykk eins og Færeyjarþokan. Hvað gerir maður þegar allt er farið,  þorpið kalið og dagleg veðurspá boðar sorgarvetur? Það er ekki sjálfgefið að vilja lifa, það er ekki lögmál að þorp lifi að eilífu.

Allar stundir ævi minnar

ertu nálæg, hjartans Lilja.

Þó er næst um næðisstundu

návist þín og angurblíða,

ástarljós og endurminning.

Allar stundir ævi minnar,

yndistíð og harmdaga,

unaðssumur, sorgarvetur –

sakna ég og minnist þín.

(Hulda)

Þriðja sagan er um skilyrðislausa vináttu, eyjaást, sem nær yfir dauða, landamæri og kreppur.

Sú taug sem tengir þessar þjóðir saman, er ekki ofin saman úr þjóðhagslegum ávinningum, heldur úr kærleika og vináttu, skyldleika og samhug íbúa þessara tveggja þjóða. Gjöf Færeyinga til Súðvíkinga og Flateyringa endurspeglar þessi grunnstef í sambandi þjóðanna. Í þungum þönkum sorgarinnar kom söfnun Færeyinga sem ljós inn í myrkur, umhyggjusamt bros vonarinnar og þíðunnar.

Það er ekki sjálfgefið að vilja lifa, stundum þarf maður aðstoð til þess að sjá framtíðina, og til að leggja nýjan grunn að henni, til dæmis byggja nýjan leikskóla.

Ég get verið þíðan þín,

þegar allt er frosið.

Því sólin hún er systir mín,

sagði litla brosið.

(Ragnar Gröndal)

Fjórða sagan er um upprisu, framtíð og börn að róla sér á leikskólavelli. Ég sé leikskólann í Súðavík frá skrifstofu sveitarfélagsins.  Ég virði fyrir mér iðandi og leikandi vaxtarsprotana á hverjum degi, þar sem þeir eru að leik og störfum í gjöfinni sem þið, Færeyingar, söfnuðuð fyrir. Gjöfin sem geymir framtíð Súðavíkur og sér til þess að sveitarfélagið eigi sér morgundag, nýjar kynslóðir. Hjartað í samfélaginu, sem aldrei verður vílað eða dílað um, er ykkar framlag.

Sumt verður aldrei fullþakkað.

Söfnun og gjöf Færeyinga má auðveldlega færa í búning ekkjunnar í guðspjöllunum, sem gaf af skorti sínum, með hreinu hjarta. Það voru ekki auðveldir tímar í Færeyjum þegar safnað var fyrir Vestfirðingum. En það hélt ekki aftur af bræðrum okkar og systrum. Ekkert lýsir betur einstakri þjóð en sú einfalda staðreynd.

Listaverkið, Tveir vitar, sem í dag verður afhent, er ekki ætlað að fullþakka, heldur til að minna okkur á einstakt samband þjóðanna,  söfnunina og gjafirnar, skilyrðislausa vináttu, og það kannski skiptir mestu í lok dagsins, kærleikurinn milli manna.

Bræður og systur Færeyingar,

ég flyt ykkur kveðju frá Vestfjörðum, ég færi ykkur samhug, vinafaðmlag og þakklæti frá Súðavíkurhreppi.

Pétur Markan

 

DEILA