Álfabækur í Safnahúsinu

Guðlaugur Arason við eitt verka sinna.

Listamaðurinn Guðlaugur Arason, eða Garason, verður í Safnahúsinu í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði í dag á milli klukkan 16 og 18 þar sem hann mun segja frá verkum sínum á sýningunni Álfabækur sem opnaði í gær. Verkin sýna bækur í ýmsu rými og krefjast þess að áhorfandinn gefi sér góðan tíma til að skoða þau því í hverju þeirra leynist lítill verndarálfur. Guðlaugur hélt fyrst einkasýningu á Álfabókum á Akureyri 2013 og höfðu verk sem þessi ekki áður verið sýnd á Íslandi.

Guðlaugur Arason gaf út sína fyrstu skáldsögu, Vindur, vindur vinur minn, 25 ára gamall. Síðan hefur hefur hann skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og tvær bækur um Kaupmannahöfn. Verk hans hafa notið mikilla vinsælda og verið verðlaunuð. Hann er því þekktari sem rithöfundur en myndlistarmaður þótt hann hafi alla tíð unnið að myndlist jöfnum höndum með skrifum. Meðal helstu bóka hans má nefna: Víkursamfélagið, Sóla, Sóla, Eldhúsmellur, Pelastikk og Gamla góða Kaupmannahöfn.

annska@bb.is

DEILA