140 manns á fjölmenningarhátíð á Suðureyri

Það var heilmikil gleði í Félagsheimilinu á Suðureyri á föstudagskvöldið er um 140 manns komu þar saman á fjölmenningarfögnuði. Þegar gengið var inn í húsið blöstu við kynningarbásar þar sem gestir gátu séð hina ýmsu menningartengdu hluti frá heimalöndum þeirra mörgu íbúa Suðureyrar sem eiga rætur sínar að rekja til fjarlægari breiddargráða. Nemendur leik- og grunnskóla Suðureyrar voru svo í aðalhlutverki í söng-, dans- og leikatriðum, ásamt upplestri á öllum þeim tungumálum sem prýða samfélagið í Súgandafirði. Á milli atriða gæddu gestir sér á gómsætu hlaðborði með mat frá Filippseyjum, Íslandi, Póllandi og Tælandi.

Það var foreldrafélag leik- og grunnskólans sem skipulagði þessa glæsilegu hátíð  og það voru saddir og sælir gestir sem yfirgáfu félagsheimilið eftir frábært kvöld að sögn Þormóðs Loga Björnssonar skólastjóra Grunnskólans á Suðureyri: „Þessi stórglæsilega hátíð, vinnan sem stjórnir foreldrafélagana og foreldrar lögðu á sig er samfélagi okkar til mikils sóma.“

Meðfylgjandi myndir frá hátíðinni tóku Lilja Einarsdóttir og Steinar Skjaldarson.

annska@bb.is

 

 

DEILA