Veturinn sleppir ekki takinu

Vindaspá fyrir laugardaginn.

Margir bíða þess með óþreyju að vorið hefji innreið sína að fullu og græn slykjan breiði úr sér yfir holt og hæðir. Enda getur veturinn verið langur hér á landi þótt sá vetur sem nú er að renna sitt skeið hafi verið óvenjulegur að mörgu leyti sé horft í meðaltöl og annála. Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að veturinn ætli ekki að sleppa takinu alveg strax því norðanáttir verða þrálátar þessa vikuna með tilheyrandi kulda. Næstu dagar munu einkennast af björtu veðri með næturfrosti um landið sunnanvert og sennilega mun snjóa eitthvað á Skírdag. Fyrir norðan mun snjóa reglulega og hitastigið verður að mestu á bláa rófinu. Hvort þetta sé sannkallað páskahret skal ósagt látið, en óháð því hvað svona tíð kallast, þá bendir flest til þess að útivistarveður verði ágætt um páskana um mest allt land og við það ættu flestir að geta unað.

Samkvæmt veðurþáttaspá Veðurstofunnar eru líkur á norðan hægviðri á Vestfjörðum um páskana með frosti og ekki er að sjá snjókomu í kortum Veðurstofunnar.

DEILA