Vá Vest: Njótum páskanna saman

Nú stendur fyrir dyrum ein stærsta hátíð ársins, páskahátíðin, þar sem margt verður í boði fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar og gesti þeirra. Vel hefur verið vandað til undirbúnings og dagskráin er metnaðarfull og fjölbreytt.  Vá Vest hópurinn bendir á að í páskafríinu slaknar á ýmsum reglum sem annars eru við lýði s.s. að börnin vaki lengur og eru meira úti við. Vá Vest minnir á að áríðandi sé að halda fast í útivistartímann.

Í orðsendingu frá hópnum er minnt á að mikið og gott starf hefur verið unnið í forvarnamálum á norðanverðum Vestfjörðum og vel hefur gengið að halda unglingum frá alls kyns neyslu og óreglu.  „Þó má aldrei slaka á! Til þess að góður árangur haldist verða allir að leggjast á eitt og sýna ábyrgð og metnað gagnvart unga fólkinu okkar sem er það dýrmætasta sem við eigum.  Unglingarnir hafa sjálfir sagt að það sem mesti máli skipti sé samvera með fjölskyldunni.  Hlustum á það og tökum mark á þeirra eigin orðum,“ segir í orðsendingunni.

Stærsti viðburður páskanna á Ísafirði er rokkhátíðin Aldrei fór ég suður sem Vá Vest segir vera frábært framtak einstaklinga, framtak sem er orðið að einkennismerki Ísafjarðarbæjar og dregur að sér fjölda fólks.  „Til þess að við getum öll notið þessa, litið til baka með ánægju og stolti yfir framtakinu, verðum við að sjá til þess að börnin okkar séu örugg – förum því með þeim og njótum stundarinnar. Við berum ábyrgð, lagalega og siðferðislega, á börnunum okkar og því skulum við sameinast um að gæta þeirra allra.  Þetta eru börnin okkar allra!“ segir að lokum í orðsendingu Vá Vest

 

DEILA