„Það sem Bandaríkin, hafið og öll hin löndin kenndu mér“

Edward Huijbens er prófessor við Háskólann á Akureyri.

Háskólasetur Vestfjarða býður upp á skemmtilegan hádegisfyrirlestur miðvikudaginn  5. apríl þar sem Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri, mun segja ferðasögu sína og fjölskyldu sinnar haustið 2016, en þau dvöldu eina námsönn á farþegaskipi sem er einskonar fljótandi háskólasamfélag. Fyrirlesturinn nefnid Edward Á sjó … Það sem Bandaríkin, hafið og öll hin löndin kenndu mér.

Fjölskyldan lagði 18.000 sjómílur að baki, heimsótti 12 lönd og fimm af heimshöfunum sjö í 24.000 tonna skipi sem Institute of Shipborne Education rekur í Bandaríkjunum. Með í för voru um 600 háskólanemar og úr varð fljótandi háskóli sem margt má læra af. Erindið mun þætta saman við ferðasöguna pælingar um ferðamál, persónulegan lærdóm Edwards og hvað háskólasamfélagið getur lært af fljótandi háskóla hafanna.

Erindi Edwards er í léttum dúr og öllum aðgengilegt og eru allir þeir sem áhuga hafa, hvattir til að mæta. Að vanda fara hádegisfyrirlestrar Háskólaseturs fram í kaffistofu setursins. Erindið er flutt á íslensku og stendur frá 12.10-13.00.

DEILA