Rokkarar fengu bláa strengi

Rokkhundurinn Mugison tekur við bláum streng úr hendi Kristjáns Freys Halldórssonar rokkstjóra.

Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður styður við verkefnið Einn blár strengur sem er átaksverkefni til vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum. Flestir af þeim gítarleikurum sem léku á hátíðinni í ár fengu afhenta bláa strengi frá Kristjáni Frey rokkstjóra Aldrei fór ég suður og munu þeir leggja hendur á plóg með því að spila á strengina í hljóðfærum sínum og vekja þannig athygli á verkefninu.

Ísfirðingurinn Sigrún Sigurðardóttir er ein aðalsprautan að baki verkefninu, en hún verið ötul baráttukona fyrir umbótum í meðferðarúrræðum þeirra sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi, til að mynda með verkefninu Gæfusporin. Einn blár strengur er leitt af kennurum og nemendum við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri og er það unnið í samstarfi við alþjóðleg samtök 1bluestring.org.  Nafn verkefnisins vísar til þess að erlendar rannsóknir sýna að einn af hverjum sex drengjum verða fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur og segir Sigrún ekkert benda til þess að eitthvað minna sé um það hér á landi.

Þann 20.maí verður haldin ráðstefna í Háskólanum á Akureyri fyrir tilstuðlan verkefnisins og verða aðalfyrirlesarar þar, dr. Gary Foster frá Ástralíu og Duncan Craig frá Bretlandi, en báðir vinna þeir með alþjóðlegu samtökunum 1bluestring.

Meira um verkefnið má lesa á fésbókarsíðu þess.

annska@bb.is

DEILA