Opið hús í MÍ

Menntaskólinn á Ísafirði.

Í dag á milli klukkan 17 og 19 verður Menntaskólinn á Ísafirði með opið hús þar sem gestum gefst kostur á að kynna sér starfsemina sem þar fer fram. Boðið verður upp á leiðsögn um skólahúsnæðið. Lagt verður af stða frá anddyri bóknámshúss á neðri hæð klukkan 17.30, 18.00 og 18.30. Þá verður ratleikur um skólann sem hefst í Gryfjunni og í vinning verður veglegt páskaegg. Tíundu bekkingar og foreldrar þeirra hafa í gegnum tíðina verið sérlega dugleg við að sækja opna húsið, enda margir í þeim hópi sem eru við það að hefja nýjan kafla í lífinu innan veggja MÍ.

Í verknámshúsinu kynna kennarar og nemendur nám í málmiðngreinum og vélstjórn. Á neðstu hæð heimavistar verður kynning á grunndeild hár- og snyrtigreina, húsasmíði og FabLab. Þá gefst gestum kostur á að skoða nýbyggingu húsasmíðanema við hlið verknámshússins, þar sem húsasmíðanemar verða að störfum ásamt kennara sínum

Í bóknámshúsi fer fram almenn kynning á námsframboði skólans og mun námsráðgjafi sitja þar fyrir svörum. Sjúkraliðanemendur og kennari gefa innsýn í sjúkraliðanámið og bóknámskennarar gefa innsýn í nokkra áfanga. Kynning á raungreinum verður í stofu 9 og kynning á lista- og nýsköpunarbraut í stofu 10-11. Þá fer þar einnig fram kynning á starfsbraut og nemendafélag MÍ kynnir félagslífið í Gryfjunni. Einnig verður kynning á bókasafni skólans á efri hæð og kynningarmyndband um MÍ í fyrirlestrarsalnum. Þá geta gestir fengið kaffi, djús til að væta spurular kverkarnar og konfekt til að maula á Gryfjunni. Allir eru velkomnir á opna húsið.

annska@bb.is

 

 

DEILA