Köfunarþjónustan bauð lægst í ofanflóðavarnir

Patreksfjörður.

Köfunarþjónustan ehf. átti lægsta tilboðið í snjóflóðavarnir á Patreksfirði. Fjögur tilboð bárust og var tilboð Köfunarþjónustunnar 56 milljónir kr. Kostnaðaráætlun verksins hljóðar upp á 70 milljónir kr. Íslenskir aðalverktakar skiluðu inn tveimur tilboðum, annars vegar frávikstilboði upp á 60 milljónir kr. og öðru tilboði upp á 65 milljónir kr. Fjórða tilboðið var frá Munck Íslandi ehf. upp á 80 milljónir kr.

Verkið er tvíþætt og felst annars vegar í að setja upp snjósöfnunargrindur úr stáli og hins vegar að setja upp fimm vindkljúfa úr stáli og timbri á steypta undirstöðu ofan upptakasvæða Urða og Klifs.

Áformað er að koma fyrir um 240 m af stálgrindum, en hæð þeirra er 3,0 m.

Tilgangur varnanna er að minnka snjósöfnun á upptakasvæðum annars vegar og draga úr hengjumyndun við upptakasvæðin hins vegar.

smari@bb.is

 

 

DEILA