Hægi á eldisumsóknum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vill að hægt verði á útgáfu nýrra leyfa til sjókvíalaxeldis þangað til skýrsla nefndar um framtíðarstefnu í greininni liggur fyrir. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gær. Þorgerður er þarna að vísa til nefndar sem Gunnar Bragi Sveinsson forveri hennar skipaði til að móta framtíðarstefnu um sjókvíalaxeldi. Nefndin á að skila niðurstöðum í byrjun ágúst ef allt gengur eftir.

„Ég leyni því ekki að ég vil, meðan að nefndin er að störfum, að menn hægi á þessum umsóknum sínum þangað til að við erum komin með skýra stefnu í laxeldis- og fiskeldismálum. Þar hef ég dregið fram að við verðum að taka mjög ríka afstöðu með lífríkinu, nátturunni og umhverfinu. Og ég tel að hægt sé að samræma þessi atriði,“ sagði Þorgerður Katrín í gær.

Að því gefnu að skýrsla nefndarinnar liggi fyrir í sumar ætlar Þorgerður Katrín að kynna nýja stefnu í laxeldi á Íslandi strax í haust.

smari@bb.is

 

DEILA