Gullrillurnar safna fyrir gönguskíðum með sushigerð

Sportkvendin í Gullrillunum á Ísafirði hafa gert garðinn frægan allt frá því er þær ákváðu í bríaríi fyrir æfa fyrir 50km Fossavatnsgönguna á síðasta ári, sem þær luku með glæsibrag. Þær létu þó aldeilis ekki þar við sitja þar sem þær tóku í kjölfarið Landvættinn, sem er áðurnefnd Fossavatnsganga, Urriðavatnssund sem er 2,5 kílómetra sund í Urriðavatni, Blue Lagoon Challenge sem er 60 kílómetra hjólreiðar frá Hafnarfirði og Jökulsárhlaupið, 32.7 kílómetra hlaup frá Dettifossi til Ásbyrgis.

Nú láta Gullrillurnar til sín taka í samfélagsmálunum og hella sér út í sushi-gerð til að safna fyrir gönguskíðum fyrir Tanga, hina nýju leikskóladeild 5 ára barna á Ísafirði. Í tilefni af Skíðavikunni sem sett verður miðvikudaginn 12.apríl munu Gullrillurnar selja sushi-bakka, sem aðdáendur hins Japanskættaða réttar taka án efa fagnandi og eru pantanir þegar teknar að streyma inn í gegnum Fésbókarsíðu Gullrillanna, en panta þarf í síðasta lagi mánudaginn 10.apríl.

Gullrillurnar stefna að því að kaupa 12 sett af gönguskíðum fyrir börnin á Tanga og segja að þeim þyki mikilvægt að öll börn fái að kynnast þessari skemmtilegu íþrótt og fannst þeim verkefnið alveg kjörið í sjálfum gönguskíðabænum. Einnig hafa Gullrillurnar fengið fyrirtæki til liðs við sig sem styrkja verkefnið og segja næst á fjáröflunarskránni, með gamansömum tón, að fá fyriræki til að styrkja að troðið verði spor frá miðbæ inn í fjörð og velta upp spurningunni hversu fallegt það væri að komast til að versla í matinn á gönguskíðunum.

annska@bb.is

 

DEILA